Stund milli stríða er nýr íslenskur söngleikur sem leikfélagið Hugleikur frumsýnir i Tjarnarbíói 5. apríl. Alls eru áætlaðar sjö sýningar. Sögusviðið er Reykjavík millistríðsáranna, sem reynist eiga sér merkilega margar og sláandi hliðstæður í nútímanum.
Haustið 1932 streyma stúlkur utan af landi í bæinn til að ganga í húsmæðraskóla. Þær eru uppfullar af spenningi og bjartsýni æskunnar en vita ekki að skólinn á í rekstrarvandræðum þar sem ástandið í þjóðfélaginu eftir heimskreppu skapar aðstæður sem þrengja að. Skömmuntarseðlar, áfengisbann, berklaveiki, þjóðernisrembingur og almenn spilling yfirvalda markar líf þeirra sem reyna að fóta sig í íslensku samfélagi fjórða áratugarins.
Höfundur verksins er Þórunn Guðmundsdóttir. Þórunn hóf leikritunarferil sinn með stæl þegar söngleikurinn Kolrassa sló eftirminnilega í gegn hjá Hugleik árið 2002. Þórunn semur bæði leik- og söngexta og tónlistina að auki, enda kona ekki einhöm. Leikstjóri er Jón St. Kristjánsson, en hann sviðsetti einmitt hina rómuðu Kolrössu á sínum tíma.
Leikfélagið Hugleikur fagnar í ár þrjátíu ára afmæli sínu, en félagið er elsta áhugaleikfélag Reykjavíkur. Hugleikur hefur frá upphafi helgað sig nýsköpun, setur eingöngu upp verk rituð af félagsmönnum sjálfum og hefur mótað sér afgerandi stíl þar sem fortíð og nútíð og hæfilegt virðingarleysi fyrir lögmálum leiklistarinnar leika lykilhlutverk.
Alls taka sextán leikarar þátt í uppfærslunni ásamt hljómsveit, en tónlistin ber að sjálfsögðu svipmót tíðarandans.
05. april kl. 20 - frumsýning
12. apríl kl. 20 - 2. sýning
13. apríl kl. 15 - 3. sýning
21. apríl kl. 20 - 4. sýning
23. apríl kl. 20 - 5. sýning
24. apríl kl. 20 - 6. sýning
27. apríl kl. 20 - 7. sýning
9. maí kl. 20.00 - aukasýning